Bilun kom upp í kerfum hjá Sjónvarpi Símans á laugardag. Unnið er að því að komast til botns í biluninni.
Upplýsingafulltrúi Símans segir sjónvarpsbilunina hafa komið á hræðilegum tíma, en passað verði að kerfið verði í lagi þegar úrslit söngvakeppninnar fara fram næstkomandi laugardag.
Einhverjir áskrifendur Símans Premium tóku eftir kerfisbilun síðastliðið laugardagskvöld sem kom upp þegar söngvakeppni sjónvarpsins var sýnd. Um nokkuð stóra bilun var að ræða en hún hafði ekki áhrif á alla viðskiptavini.
„Það sem gerðist var að ef fólk skipti um stöð, þá gat það misst samband við þjónustuna. Þannig að hjá þeim sem að sátu bara í sófanum og gerðu ekkert, þá urðu þau ekki vör við bilunina en ef að fólk var að byrja að horfa eða að skipta um stöð gat myndlykillinn eða appið misst sambandið,“ segir Guðmundur Jóhannsson, samskiptastjóri Símans.
Hann segir fyrirtækið ekki hafa lokið við að komast til botns í því hvað hafi skeð en unnið sé að því þessa dagana. Kerfið sé stórt og flókið og tímafrekara geti reynst að finna hvar bilunin liggi en að laga bilunina þegar hún sé fundin.
Spurður hvað honum finnist um þá gagnrýni að bilunin hafi mögulega haft áhrif á úrslit söngvakeppninnar segst Guðmundur leyfa sér að halda að áhorfendur hafi verið búnir að heyra lögin sem hafi verið að keppa nógu oft í útvarpinu til þess að gera upp hug sinn.
Þannig þú telur að þetta hafi ekki haft stórfelld áhrif á framgöngu Íslands í söngvakeppninni í Liverpool í vor?
„Nei, ekki frekar en að bilunin hafi haft áhrif á gengi Liverpool í ensku úrvalsdeildinni sem var að spila á sama tíma,“ segir Guðmundur og bætir því við að það sé enginn góður tími fyrir sjónvarpsbilun. Öllum bilunum sé tekið mjög alvarlega.
„Við getum verið mjög hreinskilin og auðmjúk með það að þetta er hræðilegur tími fyrir sjónvarpsbilun og eins og ég segi, við tökum þetta mjög alvarlega og munum virkilega passa að allt virki sem skyldi þegar úrslitakvöld söngvakeppninnar fer fram,“ segir Guðmundur að lokum.