Leikkonan Christina Applegate, sem berst við MS-sjúkdóminn, mætti á rauða dregilinn fyrir Screen Actors Guild-verðlaunahátíðina með staf. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem leikkonan mætir með staf á opinberan viðburð, en í þetta sinn var hún með mikilvæga áletrun á stafnum.
„FU MS,“ stóð á stafnum sem mætti þýðast sem „fokkaðu þér MS“.
Applegate hefur talað opinberlega um greininguna sem hefur haft mikil áhrif á líf hennar. Hún lauk nýverið tökum á þáttunum Dead to Me, en hún sagði það að öllum líkindum vera hennar síðasta hlutverk á ferlinum. Hún var tilnefnd í flokki leikkonu í aðalhlutverki í gamanþáttum.
Tökurnar hafi tekið mikið á hana. Þá hefur hún líka rætt um að verðlaunahátíð helgarinnar hafi mögulega verið hennar síðasta á ferlinum.
Með henni á hátíðinni var dóttir hennar Sadie.