Leikarinn Tom Sizemore er enn í dái á gjörgæsludeild eftir að hann fékk heilablóðfall hinn 18. febrúar síðastliðinn. Fjölskyldan á fyrir höndum erfiða ákvörðun um hvort halda eigi meðferð áfram.
Leikarinn, sem er hvað þekktastur fyrir að fara með hlutverk í kvikmyndinni Saving Private Ryan, fékk heilablóðfall á heimili sínu í Los Angeles um miðjan febrúar. Strax var ljóst að leikarinn væri þungt haldinn.
Umboðsmaður hans, Charles Lago, sagði við fyrirspurn Page Six að hann væri enn í alvarlegu ástandi. „Í dag greindu læknar fjölskyldunni frá því að öll von væri úti og að þeir mæltu með lífslokameðferð,“ sagði Lago og bætti við að fjölskyldan óskaði eftir næði á þessum erfiðu tímum.
Siziemore lék einnig í Black Hawk Down, Natural Born Killers og Heat. Sizemore hefur lengi átt við fíknivanda að stríða og oft komist í kast við lögin.
Hefur hann í gegnum tíðina meðal annars verið handtekinn fyrir ölvunarakstur, heimilisofbeldi og vörslu fíkniefna.