Tónlistarmaðurinn Justin Bieber hefur ákveðið að aflýsa aftur þeim dagsetningum sem eftir eru af tónleikaferðalagi hans, „Justice“ sökum heilsufarsvandamála.
Fram kemur á vef Page Six að Bieber hafi verið með 70 tónleika á dagskrá fyrir árið 2023, en dagsetningarnar hafa nú verið fjarlægðar af vefsíðu hans.
Bieber tilkynnti fyrst að hann hefði ákveðið að fresta tónleikaferðalagi sínu um óákveðinn tíma í september síðastliðnum. Nokkrum dögum áður tilkynnti tónlistarmaðurinn að hann hefði greinst með Ramsey Hunt-sjúkdóminn, taugahúðsjúkdóm sem veldur útbrotum, eyrnaverkjum og lömun í andliti.
Nýverið hefur Hailey Bieber, eiginkona hans, verið sökuð um einelti gegn fyrrverandi kærstu Bieber, Selenu Gomez. Eins og mörgum er kunnugt voru þau par á árunum 2010 til 2018.
Í kjölfarið hefur hún misst fjölda fylgjenda á Instagram-reikningi sínum á meðan fylgjendahópur Gomez hefur farið ört stækkandi. Myndskeið um meint einelti hafa farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla og valdið miklu fjaðrafoki.