Bandaríski leikarinn Tom Sizemore er látinn, 61 árs að aldri, eftir að hafa fengið heilablóðfall þann 18. febrúar síðastliðinn. Hann lést í gær á gjörgæsludeild Burbank spítalans í Kaliforníu, en bróðir hans og tvíburasynir voru hjá honum, að sögn Charles Lago, umboðsmanns Sizemore. BBC greinir frá.
Leikarinn, sem er hvað þekktastur fyrir að fara með hlutverk í kvikmyndinni Saving Private Ryan, en hann lék einnig í Black Hawk Down, Natural Born Killers og Heat.
Sizemore átti lengi við fíknivanda að stríða og komst oft í kast við lögin. Hann var meðal annars handtekinn fyrir ölvunarakstur, heimilisofbeldi og vörslu fíkniefna.
Lago sagði í yfirlýsingu eftir andlát Sizemore að synir hans væru gjörsamlega eyðilagðir og óskuðu eftir því að friðhelgi einkalífs þeirra væri virt.
Paul Sizemore, bróðir leikarans, sagðist mjög sorgmæddur vegna fráfalls bróður síns. Hann hefði haft meiri áhrif á líf hans en hann gerði sér grein fyrir. „Hann var hæfileikaríkur, ástríkur og gaf mikið af sér. Hann gat endalaust skemmt fólki með sínum einstaka frásagnarhæfileika.“