Danska leikkonan Annette Strøyberg átti að verða hin nýja Brigitte Bardot. Það gekk ekki eftir og hún hvarf fljótt af sjónarsviðinu. Líf hennar var þó um margt merkilegt og bar hana víða.
Franski kvikmyndaleikstjórinn Roger Vadim naut kvenhylli meðan hann lifði; ekki síst meðal frægra leikkvenna og goðsagna. Hann giftist bæði Brigitte Bardot og Jane Fonda og bjó um tíma með Catherine Deneuve. Svo var það Annette Strøyberg. Ha, hvaða Annette? spyrjið þið nú. Samt stendur hún okkur næst, enda dönsk í húð og hár. Hvað segið þið um að kynnast leikkonunni og fyrirsætunni Annette Strøyberg aðeins betur?
Ég verð að viðurkenna að nafnið kom mér spánskt fyrir sjónir þegar ég rakst fyrir tilviljun á það í gömlum Mogga á dögunum. Við sitjum nefnilega á ótrúlegum fjársjóði hér í Hádegismóum, 111 árgöngum af Morgunblaðinu, og menn mega teljast galnir ef þeir blaða ekki annað veifið í þeim stafla til að sækja sér innblástur. Þar hafa ein eða tvær löngu gleymdar leikkonur komið við sögu gegnum tíðina.
Árið var 1963 og Austurbæjarbíó að sýna myndina Hættuleg sambönd eða Les Liaisons dangereuses, eins og sú ágæta ræma heitir á frummálinu. Alltaf flott, franskan. Berið til dæmis saman orðin liaison og samband! Hefði það alveg drepið íslenska málfræðinga að hósta upp orði eins og líasjón? Hvað sem því líður þá voru bíóelskir Íslendingar ekki alveg að fá heitasta efnið beint í æð á þessum tíma en Hættuleg sambönd var gerð árið 1959. Það tók hana sumsé fjögur ár að skola sér upp á Íslandsstrendur.
Á því er raunar skýring. „Kvikmyndin, sem var í fyrstu algjörlega bönnuð í Frakklandi, síðan bannað að flytja hana úr landi, en nú hafa frönsk stjórnarvöld leyft sýningar á henni,“ stóð í bíókynningunni í Morgunblaðinu. Hættuleg sambönd þótti nefnilega í meira lagi djörf, á þeirra tíma mælikvarða, og ögra verkinu sem hún byggðist lauslega á, samnefndri skáldsögu Pierre Choderlos de Laclos frá 1782. Broddborgarar börðu í borðið.
Vadim hafði auðvitað daðrað áður við heimsbyggðina í Og Guð skóp konuna, eða Et Dieu … créa la femme, 1956, þar sem Bardot spratt mjálmandi fram sem fullskapað kyntákn.
En alltént. Okkar kona Strøyberg var þarna í einu af helstu hlutverkunum undir leikstjórn Rogers Vadims en þau voru þá nýlega orðin hjón. Í gömlu bíóauglýsingunni er hún sögð Strøyberg en ef maður flettir myndinni upp á Wikipediu þá fær maður eftirnafnið Vadim. Hún mun hafa notað það meðan þau Roger Vadim voru gift.
Myndin sló rækilega í gegn í bíósölum víða um heim – eins og allt sem er bannað – en synd væri að segja að Strøyberg hafi fengið góða dóma. Hún þótti ekki alveg finna taktinn, svo við orðum það nú bara kurteislega. Áform Vadims um að gera Strøyberg að nýrri Bardot frusu sumsé í hylnum. Hún lék í nokkrum myndum til viðbótar, svo sem erótískri vampírumynd Vadims, Blóð og Rósir, en allt fór á sama veg. Í frægri umsögn frá þessum árum segir þýska blaðið Die Zeit leik hennar „óbærilega upphafinn“.
Ekki nóg með að leikferillinn væri andvana fæddur, heldur var hjónabandið líka í rúst og Strøyberg og Vadim skildu árið 1961.
Nánar er fjallað um Annette Strøyberg í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.