Diljá Pétursdóttir verður framlag Íslendinga í Eurovision í Liverpool í maí. Þetta varð ljóst eftir æsispennandi úrslit Söngvakeppninnar í gær. Keppnin var haldin í Söngvakeppnishöllinni í Gufunesi.
Þar stigu fimm atriði á svið til þess að heilla hug og hjörtu þjóðarinnar. Fyrst á svið var Sigga Ózk, því næst kom Bragi, á eftir honum Celebs, síðan Diljá og loks Langi Seli og Skuggarnir.
Stóð Diljá eftir sem sigurvegari eftir að hafa haft betur gegn Langa Sela og Skuggunum í einvíginu svokallaða.
Það má segja að ákveðinn draumur verði nú að veruleika, þar sem Diljá hefur dreymt um að komast í Eurovision síðan hún var aðeins sjö ára gömul.
Spennan var gífurleg og ljósmyndari mbl.is fangaði stemninguna í Gufunesinu.