Tónlistarkonan Billie Eilish hefur eytt öllum samfélagsmiðlaforritum úr símanum sínum og segist vera „hamingjusamari en nokkru sinni fyrr.“
Eilish, sem er með yfir 110 milljónir fylgjenda á Instagram, er viðmælandi í væntanlegum hlaðvarpsþætti Conan O'Brien. Í þættinum ræða þau um samfélagsmiðla, en hún segir það hafa verið stórt skref fyrir sig að eyða þeim úr síma sínum.
Í hlaðvarpinu segist Eilish þakklát fyrir að hafa ekki alist upp við það að vera stanslaust í iPad og á netinu. „Ég átti æsku, og ég var alltaf að gera eitthvað. Svo þegar ég varð unglingur þá komu iPhone-símarnir,“ sagði hún.
Eilish segir aðra ástæðu fyrir því að hafa ákveðið að eyða samfélagsmiðlaforritum vera að henni líki ekki við að horfa á myndir af sjálfri sér.
„Það er hitt sem fer í taugarnar á mér við netið, hversu auðtrúa það gerir þig. Ég trúi öllu sem ég les á netinu. Ég veit fyrir víst að það er heimskulegt, og ég ætti ekki að gera það vegna þess að ég hef sannanir fyrir því að það sé ekki satt,“ bætti hún við.