Emma Heming Willis, eiginkona leikarans Bruce Willis, hefur óskað eftir því að blaðaljósmyndarar láti eiginmann hennar í friði. Vísar hún þar til nýlegrar fréttar sem birtist í bandarískum slúðurmiðlum með mydum af Willis.
Leikarinn er með heilabilun og greindi fjölskylda hans frá því fyrir nokkrum vikum síðan. Eiginkona hans sagði höggið þungt fyrir fjölskylduna sem enn væri að fóta sig í nýjum veruleika.
„Ef þú hefur staðið í þeim sporum að vera aðstandandi manneskju með heilabilun, þá veistu hversu erfitt og kvíðavaldandi það getur verið að reyna að fá einhvern út úr húsi og ferðast um á öruggan hátt, jafnvel bara að fara og fá sér kaffi,“ sagði Heming Willis í myndbandi á Instagram.
Blaðaljósmyndarar tóku myndir af leikaranum úti á götu með tveimur vinum sínum í Santa Barbara á dögunum. „Ég veit að þetta er vinnan ykkar, en haldið ykkur á mottunni. Ekki öskra á eiginmann minn, spyrja hvernig hann hafi það og eitthvað. Hrópin og köllin, sleppið þessu. Leyfið honum að vera í friði. Leyfið fjölskyldunni eða hverjum sem er með honum þann daginn að koma honum örugglega frá A til B. Það er mín tilkynning til ykkar,“ sagði Heming Willis.