Hin umdeilda tískusýning nærfatarisans Victoria's Secret mun snúa aftur í nýjum búningi á árinu eftir fjögurra ára hlé. Tískusýningin var fyrst haldin árið 1995 í New York-borg og var árlegur kynningarviðburður fyrir undirfatavörumerkið.
Árið 2019 var tískusýningunni hins vegar aflýst eftir háværar gagnrýnisraddir í kjölfar tískusýningarinnar árið áður. Fyrirtækið var harðlega gagnrýnt vegna skorts á fjölbreytileika á tískupallinum og í kjölfarið sagði skipuleggjandi sýningarinnar, Edward Razek, af sér.
Á þeim rúmlega 20 árum sem tískusýningin fór fram og var sjónvarpað minnkaði ummál og meðalaldur fyrirsætanna. Niðurstöður rannsóknar frá háskóla í Boston bentu einnig til þess að nærfatamerkið ýti undir óeðlilega fegurðarímynd sem er langt frá raunveruleikanum.
Eftir mikla gagnrýni virðist nærfatarisinn þó tilbúinn að snúa aftur á tískupallinn á þessu ári. Fjármálastjóri Victoria's Secret, Timothy Johnson, segir í samtali við Retail Dive að sýningin verði í nýjum búningi í ár, án þess þó að tilkynna hvað þessi „nýja útgáfa“ muni fela í sér.