Íslenska óperan hefur bætt við aukasýningu á uppsetningu sinni af Madama Butterfly, sem frumsýnd var í Hörpu á laugardag.
Í tilkynningu segir Óperan að þetta sé gert vegna mikillar eftirspurnar.
Fyrir voru hugaðar fjórar sýningar, eða þrjár sýningar auk frumsýningarinnar. Sýningin sem nú bætist við verður því sú fimmta. Verður hún haldin þann 1. apríl.
Íslenska óperan hefur mátt þola töluverða gagnrýni í kjölfar frumsýningarinnar.
Óperan hefur meðal annars verið sökuð um að nota „yellow face“, en það er þegar notaður er farði og gervi í þeim tilgangi gera hvítt fólk „asískara“ í útliti, oft á ýktan hátt.
Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri Íslensku óperunnar, þvertók fyrir þetta í samtali við mbl.is í gær.
„Ég lagði skýrar línur í upphafi ferlisins að ekki yrði neitt „yellow-face“ í sýningunni. Mér finnst það lítilsvirðandi og það stenst ekki nútímann,“ sagði hún í gærkvöldi.
Arnar Dan Kristjánsson, leikari við Íslensku óperuna, steig loks fram í gærkvöldi og kvaðst ekki myndu hafa hárkollu eða augnmálningu sem til þess væri fallin að líkja eftir kynþætti á næstu sýningu verksins.
Sagðist hann hafa skrifað óperustjóra á miðvikudag, degi eftir fyrsta rennsli með búningum og gervi, og óskað eftir því að rætt yrði um málið og þeim sem það varðar boðið að taka út rennsli og gefa leikhópnum nótur. Það hafi því miður ekki verið gert.
„Ég mun ekki klæða á mig kynþátt annarra næstkomandi laugardag. Engar hárkollur eða augnmálning sem eru til þess fallin að líkja eftir kynþætti. Aldrei aftur,“ skrifaði hann.