Karl III kóngur hefur nú veitt bróður sínum, Játvarði prins, titilinn hertoginn af Edinborg. Þetta gerir hann í tilefni af 59 ára afmæli hans í dag.
Filippus prins, faðir þeirra, bar áður þennan titil en hann fékk titilinn þegar hann gekk að eiga Elísabetu II drottningu árið 1947.
Þegar Játvarður prins gekk að eiga Sophie árið 1999 var það tilkynnt að titillinn færi til Játvarðs við fráfall Filippusar. Filippus prins lést fyrir tveimur árum og eitthvað virðist hafa staðið í vegi fyrir að Játvarður fengi titilinn. Talið er að skiptar skoðanir hafi verið innan hallarinnar um hvernig best væri að ráðstafa svo mikilvægum titli. Játvarður er þrettándi í erfðaröðinni og mun þegar fram líða stundir færast enn aftar í röðinni. Mörgum þótti því eðlilegra að einhver af yngri kynslóðinni fengi titilinn en titillinn er til eignar út ævina, erfist ekki heldur fer svo aftur til krúnunnar.
Ákveðið var hins vegar að halda í heiðri ósk Filippusar prins um að Játvarður fengi titilinn sem virðingarvott fyrir alla þá vinnu sem Játvarður prins hefur lagt á sig fyrir krúnuna.
Sérfræðingar segja líklegt að eitthvert barna Vilhjálms prins fái titilinn þegar Játvarður prins fellur frá.