Bandaríski ljósmyndarinn Chris Burkard fjallaði um ástríðu sína fyrir Íslandi og sagði frá ferli sínum á sérstökum viðburði sem haldinn var í verslun 66°Norður á Regent Street í London í gærkvöld.
Uppselt var á viðburðinn á einum degi en um 140 gestir fylltu verslunina. Burkard ræddi m.a. við breska leikstjórann og kvikmyndaframleiðandann Matt Pycroft á viðburðinum og fór vel á með þeim.
Burkard hefur margoft komið til Íslands á síðustu 15 árum vegna vinnu sinnar og ástríðu fyrir landi og þjóð eins og hann segir sjálfur. Burkard hefur náð lengra í Íslandsferðum sínum en flesta dreymir um.
Ástríða fyrir náttúrunni, metnaður og líkamlegt atgervi spila þar stórt hlutverk. Hann hjólaði m.a. þvert yfir Ísland og hljóp Laugaveginn daginn eftir eins og hann sagði frá á viðburðinum við mikla hrifningu gesta. Árið 2019 kom Burkard til landsins til þess að keppa í WOW Cyclothon og kom þar fyrstur í mark og sló einstaklingsmet keppninnar í leiðinni.
Hann segir að eitt eftirminnilegasta verkefnið hans á Íslandi var að fljúga yfir jökulárnar og taka myndir fyrir bókina At Glaciers End, sem hann gaf út á síðasta ári. Burkard tók sjö ár í að vinna að þessu verkefni áður en hann tók myndirnar saman í bók.
Burkard segist ekki fá nóg af Íslandi. Höfn á Hornafirði er alltaf í miklu uppáhaldi hjá honum, þó að þar sé oft þoka og vont veður að hans eigin sögn.