Söngkonan Loreen stóð uppi sem sigurvegari Melodifestivalen í kvöld með lagi sínu Tattoo og verður hún því fulltrúi sænsku þjóðarinnar í Eurovision sem fer fram í Liverpool í maí.
Úrslitin voru kunngjörð fyrir skömmu en samkvæmt sænska ríkisútvarpinu SVT hlaut söngkonan alls 177 stig frá dómnefnd og áhorfendum.
Flestir Eurovision-aðdáendur þekkja vel til Loreen en hún sigraði söngvakeppnina með yfirburðum árið 2012 með laginu Euphoria.
Svíþjóð skaust á toppinn í veðbönkum þegar að brot úr lagi söngkonunnar var fyrst birt á vef SVT í síðasta mánuði. Fyrir það hafði Úkraína vermt toppsætið.