Óskarsverðlaunahafarnir urðu heillaðir á Iceland Airwaves

Árni Rúnar Hlöðversson, meðlimur hljómsveitarinnar FM Belfast.
Árni Rúnar Hlöðversson, meðlimur hljómsveitarinnar FM Belfast. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

Óskarsverðlaunahafarnir Daniel Scheinert og Daniel Kwan heilluðust af hljómsveitinni FM Belfast og Íslandi þegar þeir voru gestir á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves árið 2009. Í kjölfarið sendu þeir liðsmönnum sveitarinnar tölvupóst og báðu um að fá að gera tónlistarmyndband. 

Blaðamaður mbl.is sló á þráðinn til Árna Rúnars Hlöðverssonar, meðlims hljómsveitarinnar FM Belfast, og fékk að forvitnast um samstarfið. 

Urðu heillaðir á Iceland Airwaves

Eftir að hafa séð FM Belfast á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves lá leið Scheinert og Kwan í geisladiska- og plötuverslunina 12 tóna þar sem þeir keyptu plötu eftir hljómsveitina. 

„Þeir kunnu að meta stemmninguna sem við höfum fram að færa – smá grín, smá kæruleysi og bara góð stemmning,“ segir Árni. 

Í kjölfarið sendu þeir hljómsveitinni tölvupóst og spurðu hvort þeir mættu gera tónlistarmyndband fyrir hana. „Við svöruðum já, en við eigum enga peninga,“ útskýrði hljómsveitin í færslu sem birtist á Facebook-síðu þeirra. „Það var í góðu lagi og þeir buðust til að gera þetta ókeypis þar sem þetta var fyrsta verkefni þeirra eftir að hafa lokið kvikmyndaskóla.“

„Ég man ekki eftir einfaldara ferli“

Spurður út í ferlið segir Árni það hafa verið afar einfalt. „Við spjölluðum saman í gegnum tölvupóst þar sem við veltum fyrir okkur hvaða lag ætti að vera fyrir valinu. Svo sendu þeir okkur handrit og stuttu síðar kom myndband,“ útskýrir hann. 

Nú eru rúmlega 13 ár liðin frá fyrstu samskiptum hljómsveitarinnar við Óskarsverðlaunahafana. Árni segir þau hafa fylgst með Scheinert og Kwan af aðdáun úr hæfilegri fjarlægð í gegnum árin. 

Aðfaranótt mánudags unnu leikstjórarnir til hvorki meira né minna en sjö Óskarsverðlauna fyrir kvikmyndina Everything Everywhere All at Once. Árni er að sjálfsögðu búinn að sjá myndina og segist vera yfir sig hrifinn. „Ég er búinn að vera hálf óþolandi við fólkið í kringum mig og búinn að krefjast þess að öll horfi á myndina,“ segir hann. 

Spurður hvort FM Belfast gæti hugsað sér að vinna meira með Scheinert og Kwan svarar Árni játandi. „Ég er þó ekki viss um að þeir vinni frítt lengur,“ bætir hann við og hlær. 

Þótt Scheinert og Kwan séu kannski ekki í kortunum hjá hljómsveitinni í allra nánustu framtíð er margt spennandi framundan. Hljómsveitin ætlar meðal annars að blása til tónleika hinn 25. mars næstkomandi á Húrra. „Það er alveg að verða uppselt,“ segir Árni að lokum. 

Hægt er að nálgast miða á tónleikana á Húrra á …
Hægt er að nálgast miða á tónleikana á Húrra á miðasölu tix.is. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar