Sena Live hefur tekið yfir tónleika Lewis Capaldi sem fara áttu fram hér á Íslandi á síðasta ári. Reykjavík Live skipulagði tónleikana áður, en þeim var aflýst daginn áður en þeir áttu að fara fram í ágúst 2022.
Í tilkynningu frá Senu segir að tónleikarnir muni fara fram í Laugardalshöllinni hinn 11. ágúst næstkomandi. Hafa þeir verið færðir úr nýju höllinni yfir í gömlu höllina þar sem hámarksfjöldi gesta er 5 þúsund.
Enn fremur kemur fram að búið sé að hafa samband við þau sem áttu miða á fyrri tónleikana.
Forsala á tónleikana hefst á morgun klukkan ellefu en miðar fara í almenna sölu á föstudag klukkan 11.