Stórleikarinn Tom Cruise frílystar sig nú í Longyearbyen á Svalbarða en þangað kom hann í gær ásamt fríðu föruneyti. Erindið hafa lesendur líklega þegar getið sér til um og jú, mikið rétt, í heimskautaloftinu á Svalbarða stendur einmitt til að taka upp atriði í áttundu kvikmynd eins lífseigasta framhaldsmyndaflokk veraldar, Mission Impossible.
Áttunda MI-myndin er reyndar annar kafli þeirrar sjöundu og ber nafnið Dead Reckoning Part Two en fyrri hluti þeirrar myndar verður frumsýndur í júlí.
„Hér er dásamlegt að vera,“ sagði Cruise í samtali við staðarblaðið Svalbardposten sem reyndar varð ekki lengra en þessi eina setning þar sem hann gaf ekki kost á viðtali. Hins vegar heimsótti hann verslunarmiðstöðina Lompensenteret og leyfði gestum og gangandi þar að mynda sig með honum. Cruise hefur verið tíður gestur í Noregi síðustu ár vegna verkefna í tengslum við Mission Impossible-myndirnar.
Framleiðslufyrirtækið PolarX hefur sótt um leyfi fyrir fjörutíu þyrlulendingum á Svalbarða í tengslum við tökurnar en fékk þvert nei frá sýslumanninum á Svalbarða, sysselmesteren på Svalbard eins og hann kallast, og er ákvörðunin rökstudd með vísan til umhverfissjónarmiða. „Öll umferð um Svalbarða skal vera með þeim hætti að hún trufli ekki að óþörfu menn eða dýr,“ segir Kristin Heggelund umhverfisverndarstjóri í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.
PolarX hefur kært synjun sýslumanns til norska umhverfisráðuneytisins sem kveðst ætla að taka ákvörðun á morgun enda hver dagur dýrmætur, tökur MI:8 áttu að hefjast á mánudag í þessari viku og standa til 9. apríl við Linnevatnet, St. Jonsfjorden, á Negribreen og í Adventdalen.
Jason Roberts, forstjóri PolarX, vill ekki tjá sig um málið við NRK en PolarX hefur leigt skipið PolarXplorer vegna vinnu við tökurnar.
Christian Skottun, talsmaður viðskiptaráðs Svalbarða, segir það mikla viðurkenningu að Svalbarði hafi verið valinn sem tökustaður fyrir Mission Impossible. „Það finnst okkur viðkunnanlegt. Þetta sýnir að litlir staðir eins og Longyearbyen geta líka haft sitt aðdráttarafl,“ segir Skottun.
Þar með er aðeins beðið eftir úrskurði í þyrlumálinu en Aleksander Øren Heen, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu sem Miðflokkurinn fer með um þessar mundir, segir umhverfisvernd eitt efsta mál á baugi á Svalbarða. „Það væri ekki í samræmi við umhverfismarkmið Svalbarða að ýta undir þyrluflug í náttúrunni umfram það sem samræmist reglum og framkvæmd,“ segir ráðuneytisstjóri.