Tónlistarmaðurinn Chris Brown hefur vakið reiði eftir að hann tók fyrrum Love Island-stjörnuna Nataliu Zoppa hálstaki á tónleikum sínum í Manchester fyrr í vikunni.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem R&B söngvarinn sýnir af sér ofbeldisfulla hegðun og hefur hann verið sóttur til saka oftar en einu sinni í gegnum árin.
Atvikið með Zoppa kemur aðeins nokkrum vikum eftir að Brown gagnrýndi nokkra af andmælendum sínum sem minntust á atvik frá árinu 2009 þegar hann réðst á þáverandi kærustu sína, tónlistarkonuna og frumkvöðulinn, Rihönnu.
Á tónleikunum, sem eru hluti af tónleikaferðalagi Brown, Under the Influence bauð hinn 33 ára gamli söngvari Love Island stjörnunni upp á svið til sín þar sem hann byrjaði að dansa ögrandi í kringum hana. Dansinn tók þó fljótt aðra stefnu þegar Brown greip um hálsinn á henni.
Tónleikagestir og aðrir sem hafa séð myndir og myndbönd af atvikinu á samfélagsmiðlum segja flestir að Zoppa líti augljóslega út fyrir að líða óþægilega á því augnabliki þegar Brown leggur hendur um háls hennar.
„Kannski á ég ekki að skipta mér af, en af hverju myndirðu vilja að Chris Brown leggi hendur um hálsinn á þér eftir það sem hann gerði Rihönnu?“ sagði einn sleginn áhorfandi.
Kjöltudans Brown með aðdáanda er orðinn fastur liður á tónleikum hans á þessu tónleikaferðalagi og velur hann unga dömu úr salnum til þess að koma upp á svið til sín.
Sá hluti hefur þó ekki gengið smurt þar sem Brown reiddi til að mynda einn ákafan kvenaðdáanda á tónleikum sínum í Berlín fyrir nokkru þegar hann greip símann hennar og kastaði honum út í mannþröngina. Stúlkan vildi ólm ná myndbandi af sér með söngvaranum á sviðinu en það gekk ekki betur en að síminn hvarf í mannhafinu.