Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno, segist ekki skilja hvernig Íslenska óperan hafi haldið áfram með sýningar á verkinu Madama Butterfly þrátt fyrir að fjöldi manns hafi sagt verkefnið uppfullt af kynþáttafordómum.
Óperan hefur verið gagnrýnd harðlega á síðustu vikum fyrir uppfærslu sína á verkinu og aðstandendur hennar sakaðir um að nota „yellow face“. Þá er notaður farði og gervi í þeim tilgangi gera hvítt fólk „asískara“ í útliti, oft á ýktan hátt.
Haraldur bendir á að þrátt fyrir gagnrýni hafi lítið breyst í sýningunni.
„1. Fullt af kláru fólki vinnur í langan tíma við að setja upp sýningu en samt virðist enginn fatta að hún er mjög augljóslega rasísk?!
2. Sýningin er frumsýnd og fullt af fólki bendir á að hún er rasísk en samt er nánast engu breytt!?“ spyr Haraldur.
Rithöfundurinn Sigurjón Birgir Sigurðsson, Sjón, tekur undir með Haraldi og svarar spurningum hans.
Sjón vísar þar til þess að leikarinn Arnar Dan Kristjánsson hafi skrifað óperustjóra bréf eftir fyrsta búningarennsli.
Vísar hann enn fremur til þess að Steinunn Birna Bragadóttir óperustjóri hafi vísað ásökunum um kynþáttafordóma og „yellow face“ á bug.
Fleiri hafa tekið undir með Haraldi og Sjón, þar á meðal fjölmiðlamaðurinn og leikarinn Felix Bergsson, sem svarar Haraldi með orðunum „spot on“.
Óperan hefur aðlagað sýningu sína að nokkru leyti eftir gagnrýnina og hefur andlitsmálningu leikara verið breytt. Á annarri sýningu Madömu Butterfly voru nokkrir leikara heldur ekki með hárkollur sem áður voru hluti af gervinu á frumsýningarkvöldinu.