Hryggð og sorg einkenndu afmælisdag leikarans Bruce Willis sem varð 68 ára um helgina. Eiginkona leikarans, Emma Heming Willis, birti myndband af sér um helgina þar sem hún segist hafa byrjað daginn á því að gráta.
Willis greindist með heilabilun í febrúar á þessu ári, en á síðasta ári greindi fjölskylda hans frá því að hann glímdi við málstol. Þá greindi hún einnig frá því að hann væri hættur að leika í bíómyndum.
Heming Willis sagði í færslu sinni að það væri mikilvægt að fólk fengi að sjá allar hliðar af raunveruleika þeirra fjölskyldunnar, og að stundum væru dagarnir bara erfiðir.
Fyrrverandi eiginkona Willis, leikkonan Demi Moore, birti einnig myndband um helgina þar sem sjá má leikarann umvafinn fjölskyldu og ástvinum. Syngja þau afmælissönginn fyrir hann. Moore og Willis eiga saman þrjár dætur.