Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna, KHF, verður haldin í níunda skipti í Bíó Paradís helgina 25. og 26. mars 2023. Opið verður báða dagana frá klukkan 12 til 17 og er aðgangur ókeypis. Þetta segir í tilkynningu frá stjórn hátíðarinnar.
Á hátíðinni verða veitt vegleg verðlaun fyrir þætti á borð við besta leik, bestu tæknilegu útfærsluna og besta handritið en auk þess verða Hildarverðlaunin svokölluðu veitt fyrir bestu tónlist, sem tileinkuð eru Hildi Guðnadóttur óskarsverðlaunahafa.
Fyrir bestu myndina eru verðlaunin styrkur til þess að sækja sumarnámskeið hjá New York Film Academy, auk sérstakra ráðgjafaverðlauna frá Kvikmyndaskóla Íslands.
Dómnefnd skipa einvala lið úr íslenskum kvikmyndaiðnaði, þau Christof Wehmeier kynningarstjóri Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Dóra Jóhannsdóttir leikkona og Marzibil Snæfríðar Sæmundardóttir kvikmyndagerðarkona, að því er segir í tilkynningunni.
„Ýmislegt annað er á hátíðinni eins og skemmtiatriði, kynningar á kvikmyndaskólum hér og erlendis ásamt öðru efni tengt kvikmyndagerð,“ segir í tilkynningunni.
Geta því kvikmyndagerðarmenn framtíðarinnar og aðrir áhugasamir litið við í Bíó Paradís, helgina eftir viku, til þess að efla tengslanetið eða einfaldlega til að njóta kvikmyndanna sem til sýnis eru.
„Eitt af aðal markmiðum hátíðarinnar er að gera nemendum í framhaldsskólum landsins kleift að koma kvikmyndaverkum sínum á framfæri og kynnast öðrum með sömu áhugamál.
Tækifærin sem skapast upp úr hátíðinni eru ófá og því vonumst við til þess að gera hátíðina sýnilegri og skapa henni jafnframt fastan sess í félagslífi íslenskra ungmenna,“ segir jafnframt í tilkynningunni.