Leikkonan Amanda Bynes var nauðungarvistuð á geðdeild á sunnudag eftir að hafa reikað um götur Los Angeles nakin.
Í samtali við TMZ sögðu sjónarvottar að Bynes, sem er með geðhvörf, hafi ráfað um göturnar nakin og sagði ökumönnum að hún væri í maníu.
Hún hringdi síðar sjálf í neyðarlínuna og var flutt á næstu lögreglustöð. Í kjölfarið var hún vistuð á geðdeild.
Bynes hafði ætlað að mæta á poppmenningarráðstefnuna 90s-con í Connecticut með skærustu stjörnum tíunda áratugsins en hætti við vegna veikinda.
Leikkonan endurheimti sjálfræði sitt á síðasta ári. Hafði móðir hennar verið lögráðamaður hennar í níu ár fyrir það. Móðir Bynes og geðlæknir hennar studdu hana í ferlinu að sækja aftur um sjálfræði.
Missti hún upphaflega sjálfræðið eftir að hún var nauðungarvistuð á geðdeild árið 2013. Auk þess að vera með geðhvörf hefur Bynes glímt við fíknisjúkdóm.