Aðalmeðferð í máli fyrrverandi sjóntækjasérfræðingsins Terry Sanderson gegn Óskarsverðlaunaleikkonunni Gwyneth Paltrow hófst Park City í Utah í Bandaríkjunum í dag. Paltrow mun sitja öll réttarhöldin en búist er við því að hún muni bera vitni á næstu dögum. Á
Sanderson höfðaði mál gegn Paltrow vegna skíðaslyss sem varð á Deer Valley-skíðasvæðinu árið 2016. Sakar hann hana um að hafa klesst á hann og skíðað á brott. Segir hann hafa skíðað stjórnlaust og af gáleysi niður brekkuna.
Í slysinu braut Sanderson fjögur rifbein auk þess sem hann slasaðist á höfði.
Paltrow hefur höfðað gagnsókn og sakar hann um að hafa klesst á sig af fullum þunga.
Sanderson, sem er 76 ára, fer fram á 300 þúsund bandaríkjadali í skaðabætur eftir slysið. Hefur hann lækkað kröfu sína talsvert, en fyrst fór hann fram á 3,1 milljón bandaríkjadala. Hann höfðaði málið fyrst árið 2019.
Sagðist hann hafa beðið með að höfða málið í þrjú ár vegna þess að hann væri enn að glíma við afleiðingar slyssins. Væri hann að glíma við alvarlegar afleiðingar heilahristings auk þess sem hann hafi átt í vandræðum með lögmenn sína.
Í gagnsókn Paltrow segja lögfræðingar hennar að hún hafi ekki skíðað meira daginn sem slysið varð og að hún hafi beðið Sanderson afsakið í kjölfar árekstursins. Hann hafi þá sagt að í góðu lagi væri með hann.