Saksóknari í Orange County í Bandaríkjunum hefur látið ákæru gegn Justin Roiland niður falla. Roiland, sem er meðhöfundur þátta Rick and Morty og raddleikari, var ákærður fyrir að beita fyrrverandi kærustu sína heimilisofbeldi.
Var ákæran látin niður falla vegna skorts á sönnunargögnum í málinu að því er talskona saksóknara sagði Associated Press.
Roiland tjáði sig um ákvörðun saksóknara á Twitter í gær og skrifaði orðið réttlæti við yfirlýsingu.
„Ég hef alltaf vitað að þessar ásakanir eru rangar, og ég hef ekki efast um að þessi dagur myndi koma. Ég er þakklátur fyrir að þetta mál hafi verið látið niður falla, en á sama tíma hefur það mikil áhrif á mig að svona hryllilegum gjörðum hafi verið logið upp á mig í ferlinu.
Það sem er vonsviknastur með er að svo margir tóku strax afstöðu í málinu án þess að vita nokkuð um staðreyndir þess og byggðu ákvörðun sína aðeins á orðum bitrar fyrrverandi kærustu sem var að reyna að slaufa mér,“ skrifaði Roiland meðal annars.
Roiland er höfundur teiknimyndanna um Rick & Morty, en þá skrifaði hann ásamt Dan Harmon. Þegar fregnir bárust fyrst af málshöfðun fyrrverandi kærustu Roiland sagði sjónvarpsstöðin Adult Swim honum upp störfum.
justice pic.twitter.com/1q9M4GA6MV
— Justin Roiland (@JustinRoiland) March 22, 2023