Úrslit Eurovision verða sýnd beint í kvikmyndahúsum í Bretlandi í ár. Verður þetta í fyrsta skipti sem boðið verður upp á slíkt þar í landi.
Mikil spenna er í Bretlandi vegna keppninnar, sem haldin er í Liverpool, en miðar á úrslitakeppnina seldust upp á 40 mínútum fyrr í mánuðinum.
Aðdáendur sem misstu af þeim miðum geta því fengið stemmninguna beint í æð í kvikmyndahúsum í staðinn.
Í samtali sínu við BBC sagðist talsmaður CinemaLive, sem stendur fyrir sýningunum, vera himinlifandi yfir samstarfinu við breska ríkisútvarpið. Hvetur hann gesti til að hópa sig saman, klæða sig upp í búninga og syngja með.
Sýningar fara fram í yfir 500 kvikmyndahúsum víðs vegar um Bretland og hægt verður að kaupa miða frá og með mánudeginum 27. mars næstkomandi.