Kanadíska hljómsveitin Jessica Pearson and the East Wind mæta til landsins í apríl og munu loksins spila á hefðbundnari stað en í flugvél á miðri flugbraut. Hljómsveitin vakti athygli hérlendis fyrir að halda tónleika í fullri vél af farþegum í janúar síðastliðnum.
Jessica Pearson, söngkona sveitarinnar, segir síðustu vikur hafa verið klikkaðar í kjölfar þess að myndband af söng tríósins um borð í flugvél Icelandair fór eins og eldur um sinu um internetið. Pearson og hinir tveir meðlimir sveitarinnar voru meðal þeirra farþega sem sátu fastir vegna vonskuveðurs svo klukkutímunum skipti í flugvél á Keflavíkurflugvelli.
Áhöfn vélarinnar hafði heyrt af því að það væri hljómsveit um borð og stakk upp á því að þær tækju nokkur lög til þess að gleðja farþegana. Úr urðu tónleikar þar sem hljómsveitin gekk um vélina spilandi bæði óskalög frá farþegum og frumsamda tónlist.
Hluti af flugvélatónleikunum náðist á myndband og fékk mikla athygli víða um heim. Þó var athyglin ekki öll af hinu góða en Pearson segir deilingu sína af myndbandinu á samfélagsmiðlinum Tiktok hafa fengið mikla neikvæða athygli.
„Fólk sakaði mig um að halda flugvélinni í gíslingu í tíu klukkutíma og neyða alla til þess að hlusta á tónlistina mína,” segir Pearson í samtali við mbl.is. Hún segir lífsreynsluna hafa verið áhugaverða en meirihluti viðbragða sem hljómsveitin hafi fengið hafi verið jákvæð.
Hún segist þegar vera byrjuð að semja tónlist í kringum ringulreiðina sem myndaðist eftir flugvélartónleikana. Tríóið sé glatt að hafa fengið eins miklar þakkir frá farþegum og Icelandair og raun ber vitni en á tímabili hafi þær endurskoðað viðveru sína á samfélagsmiðlum.
Vikuna eftir flugvélatónleikana kynntist sveitin svo tónlist íslensku hljómsveitarinnar Brek á tónlistarráðstefnu á Írlandi. Í kjölfarið ræddu sveitirnar saman og munu þær nú stíga á svið á Café Rosenberg þann 27. apríl næstkomandi.
Tríóið spilar bæði frumsamin lög og ábreiður en leggur áherslu á kántrý og þjóðlagatónlist. Þá segir hún þær vilja semja tónlist um mannlegu hliðar lífsins og það sem fólk gengur í gegnum á hverjum degi. Þá sé aðalmarkmiðið að dreifa gleði með tónlistinni.
„Ég skrifa mjög oft um mína eigin reynslu. Mér hefur fundist síðustu tvö ár hafa snúist um það að læra að elska sjálfa mig og finna gleðina svo ég skrifa mikið um það. [...] Við reynum að láta fólki líða eins og við séum með þeim heima í stofu að skemmta okkur og spjalla um lífið og tilveruna,” segir Pearson.
Spurð hvernig tilfinningin sé að fá loksins tækifæri til þess að upplifa Ísland segist hún vera gífurlega spennt.
„Mig hefur alltaf langað til þess að spila á Íslandi en það hefur verið erfitt að komast þangað. Að fá að koma til baka og spila á alvöru tónleikum er svo góð tilfinning. Icelandair og Íslendingar hafa stutt okkur svo mikið,” segir Pearson.
Hljómsveitin verður á landinu í viku og segist Pearson hlakka til þess að fá að skoða landið, tala við skemmtilegt fólk og semja meiri tónlist. Þá er hún einna spenntust fyrir því að upplifa útiveru á Íslandi, fara í göngur og skoða náttúrulaugar og vonast, eins og svo margir, til þess að fá að sjá norðurljós.
„Ég er mjög spennt að fá að sjá Ísland og semja tónlist þar. Við erum að gefa út nýtt lag í maí sem er mikið byggt á þessari reynslu,” segir Pearson að lokum.
Upplýsingar um tónleikana má sjá með því að smella hér.