„Alveg besta upplifun lífs míns“

Ég fékk ótrúlegt kick út úr því – að standa …
Ég fékk ótrúlegt kick út úr því – að standa þarna á sviðinu í Eldborg með hljómsveit – snúa mér svo við og byrja að syngja á meðan ég stjórnaði. Það var alveg besta upplifun lífs míns,“ segir Agga. Ljósmynd/Stefanía Elín Linnet

Óhætt er að segja að hin 22 ára Ragnheiður Ingunn Jóhannsdóttir ráðist ekki á garðinn þar sem hann er lægstur en hún er ekki aðeins óperusöngkona, heldur einnig fiðluleikari og hljómsveitarstjórnandi.

Ragnheiður, eða Agga eins og hún er jafnan kölluð, var valin bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum í síðustu viku.

„Þetta var allt ótrúlega skemmtilegt, gaman að hitta svona margt tónlistarfólk og geta fagnað saman góðu ári í íslensku tónlistarlífi,“ segir Agga um verðlaunin og bætir við að þar hafi hún jafnvel rekist á nokkra fyrrverandi tónlistarkennara sína.

Þetta var fyrsta skipti Öggu á verðlaunaathöfninni.
Þetta var fyrsta skipti Öggu á verðlaunaathöfninni.

Agga útskrifast úr Konunglega tónlistarháskólanum í Stokkhólmi í vor og útskriftartónleikar hennar fara fram í maí. Þá skilaði hún mastersritgerðinni sinni daginn eftir verðlaunaathöfnina og ljóst að nóg er að gera hjá björtustu voninni.

„Og svo var líka gaman að hitta fólk sem ég hef heyrt tónlist eftir en aldrei hitt áður í eigin persónu,“ segir Agga en þetta var í fyrsta sinn sem hún var viðstödd hátíðina.

Þræðir Skandinavíu tvisvar í mánuði

Samhliða náminu í Stokkhólmi er Agga nemandi við Malko-akademíuna í hljómsveitarstjórn í Kaupmannahöfn og hefur því tekið lest milli borganna tveggja um það bil tvisvar í mánuði í vetur.

Um er að ræða tveggja ára prógram sem fer að mestu fram um helgar, en kallar líka á heilmikla undirbúningsvinnu fyrir ungu hljómsveitarstjórana sex sem allir stunda auk þess nám eða störf í hljóðfæraleik eða söng víða í Evrópu. Agga er ekki bara eina konan í hópnum heldur einnig eini nemandinn frá Norðurlöndunum.

Úr Mako-akademíunni í Kaupmannahöfn. Agga er eina stelpan og sú …
Úr Mako-akademíunni í Kaupmannahöfn. Agga er eina stelpan og sú eina af Norðurlöndunum.

„Það er svolítið það sem ég hef verið að fókusera á í mastersnáminu mínu í Stokkhólmi, að syngja og stjórna á sama tíma,“ segir Agga en á Óperudögum síðasta haust frumflutti hún þrjú söngverk og stýrði eigin hljómsveit.

Verkin þrjú voru samin fyrir Öggu og því sérstaklega með það í huga að sópransöngkonan stýrði hljómsveitinni en tónskáldin voru Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir, María Huld Markan og Jóhann G. Jóhannsson, faðir Öggu.

„Það var ótrúlega gaman að fá verk samin fyrir mig – og algjör forréttindi að fá að frumflytja tónverk. Alveg sérstök upplifun.“

Í Malko-akademíunni.
Í Malko-akademíunni. Danish Broadcasting Corporation/Agnete Schlichtkrull

Lengi ætlað sér þetta

En hvenær kviknaði hugmyndin – að blanda saman söng og hljómsveitarstjórn? Agga segist lengi hafa haft það bakvið eyrað.

„Ég sá tónleika í sjónvarpinu með Barböru Hannigan fyrir nokkrum árum þar sem hún söng og stjórnaði samtímis. Diddú, sem þá var söngkennarinn minn, sendi mér sms og sagði mér að kveikja á sjónvarpinu: „Svona verður þú eftir nokkur ár“, sagði hún, en hún er náttúrulega bara besta kona í heimi, alltaf svo hvetjandi og hjá henni fékk ég mikinn innblástur,“ svarar Agga.

„Svo þegar Guja Sandholt, listrænn stjórnandi Óperudaga, var að leita að nýsköpunarverkefnum til að vinna í samstarfi við hátíðina nefndi ég þetta við hana og við slógum til!,“ segir Agga og bætir við að hún sé Guju ævinlega þakklát fyrir að hafa haft trú á sér og gefið sér slíkt tækifæri.

Agga og Diddú baksviðs í Hörpu. Agga hóf nám hjá …
Agga og Diddú baksviðs í Hörpu. Agga hóf nám hjá Diddú 14 ára gömul. Ljósmynd/Lilja Guðmundsdóttir

Þá kveðst Agga verið svo lánsöm að fá að hitta og fylgjast með Barböru síðasta sumar, þegar hún kom hingað til lands til þess að stjórna Sinfóníuhljómsveit Íslands.

„Ég var svo heppin að fá að fylgjast með öllum æfingunum og spjalla svo vel og lengi við Barböru, hún er alveg mögnuð! Henni fannst mjög merkilegt að ég hefði pantað verk sem eru skrifuð fyrir syngjandi stjórnanda, það hefur hún ekki gert og heldur að þetta séu fyrstu verkin sem samin eru með slíkt í huga.“

Tvöfalt nám í Listaháskólanum

Tónlistarnám hóf Agga ung að árum, fimm ára gömul byrjaði hún að læra á fiðlu og lærði lengst af hjá Guðnýju Guðmundsdóttur. Söngurinn fór þó brátt að kalla á hana og hóf hún söngnám hjá Diddú fjórtán ára, á sama tíma og hún hóf nám í Menntaskólanum í Reykjavík.

„Svo þegar ég kom í Listaháskólann var ég svo heppin að fá að vera í fullu námi í bæði fiðluleik og söng og fékk meira að segja líka að læra hljómsveitarstjórn.“

Því hafi í raun hentað betur að fara í LHÍ frekar en út, þar sem ella hefði hún þurft að velja milli fiðlunnar og söngsins.

„Það var bara algjör lúxus og gott skref fyrir mig, erlendis hefði ég síður fengið þann möguleika og hér heima fékk ég að velja allt sem ég vil. Það er það sem ég er svo ótrúlega þakklát fyrir,“ segir Agga og bætir við að hún sé þakklát fyrir skilning frá bæði kennurum og deildarstjórum Listaháskólans.

Agga útskrifaðist úr klassískum fiðluleik og óperusöng vorið 2021.
Agga útskrifaðist úr klassískum fiðluleik og óperusöng vorið 2021. Ljósmynd/Sunna Rán Stefánsdóttir

„Þetta hefur allt nýst mér svo vel og gefið mér tækifæri til að kynnast fjölbreyttri tónlist og vinna með frábæru fólki úr öllum áttum. Ég nýt þess í botn að spila á fiðluna, syngja og stjórna og hef aldrei getað valið,“ segir Agga og hlær.

Það er nú ákveðin sérstaða fólgin í því að vera bæði söngkona og hljómsveitarstjóri, ekki satt?

„Jú, ég myndi halda það og ég vona sannarlega að ég fái að gera þetta oft í framtíðinni. Ég fékk ótrúlegt kick út úr því – að standa þarna á sviðinu í Eldborg með hljómsveit – snúa mér svo við og byrja að syngja á meðan ég stjórnaði.

Það var alveg besta upplifun lífs míns.“

Heimalandið kallar alltaf

Spurð hvað taki við, að námi loknu, segir Agga að það þurfi að koma í ljós. Heimurinn sé stór en heimalandið kalli alltaf.

„Mér líður ótrúlega vel á Íslandi. Mig langar eiginlega aldrei að fara út þegar ég er þar, það er svo gott að vera heima með fjölskyldu og vinum. En svo er heimurinn auðvitað stærri en Ísland og maður vill kannski reyna að fikra sig áfram í aðeins stærra umhverfi.

Planið sé því að vera meira heima næsta vetur á meðan hún klárar námið í Kaupmannahöfn. Þá er stefnan sett á Óperudaga í haust á nýjan leik og fleiri tónleikar á döfinni. Næstu tónleikar hennar á Íslandi verða með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg þann 25. maí þar sem hún var meðal sigurvegara í einleikarakeppni hljómsveitarinnar.

Ljósmynd/Stefanía Elín Linnet

„Svo hugsa ég að ég sæki um í meira nám. Ég er ekki alveg búin að ákveða hvort það verður í hljómsveitarstjórn eða í óperu-akademíu eða óperu-stúdíói. Það verður bara að koma í ljós.

En síðan er bara svolítið erfitt að plana líf tónlistarmanns, maður veit einhvern veginn aldrei hvaða tækifæri bjóðast. Stundum kemur eitthvað óvænt með stuttum fyrirvara. Ég er búin að vera á endalausu flakki,“ segir Agga en hún kemur af og til heim og leikur á fiðlu í Sinfóníuhljómsveitinni og kemur fram á ýmsum tónleikum.

Hún kveðst spennt fyrir komandi tímum.

„Ég vona að ég haldi áfram að fá spennandi tækifæri og ætla alltaf að gera mitt besta.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir