Tónlistarframleiðandi sem varð fyrir árás á næturklúbbi í Lundúnum hinn 19. febrúar síðastliðinn segir tónlistarmanninn Chris Brown hafa ráðist á sig.
Maðurinn, sem hefur ekki komið undir nafni, sagði í samtali við The Sun að Brown hafi byrjað árásina. Þá segist hann hafa verið sleginn og að sparkað hafi verið í hann þar sem hann lá á gólfinu. „Það var hann sem lamdi mig. Hann sló mig tvisvar eða þrisvar í höfuðið,“ sagði hann.
Maðurinn var fluttur á sjúkrahús í kjölfar árásarinnar og þurfti að styðjast við hækjur til að ganga þegar hann kom út af sjúkrahúsinu. „Ég hef rætt við lögregluna sem vonast til að leysa málið fljótt. Það er nú í höndum lögfræðings míns og get ég því ekki tjáð mig frekar,“ bætti hann við.
Brown á að baki langa sögu um ofbeldishegðun, en árið 2009 réðist hann á þáverandi kærustu sína, tónlistarkonuna Rihönnu. Árið 2013 var hann svo handtekinn fyrir að nefbrjóta karlmann í Washington.
Tveimur árum síðar var hann sakaður um að hafa kýlt mann í spilavíti í Las Vegas og ári síðar var hann handtekinn fyrir að ráðast á konu og hóta henni með byssu. Þá lagði fyrrverandi kærasta hans, Karrueche Tran, fram kæru á hendur honum vegna heimilisofbeldis árið 2017.
Þá hefur hann einnig verið sakaður um tvær nauðganir, annars vegar í París og hins vegar í Flórída í Bandaríkjunum. Nú síðast rataði hann í fjölmiðla eftir að hafa tekið Love Island-stjörnu hálstaki á tónleikum sínum.