Outer Banks-leikarinn Chase Stokes og tónlistarkonan Kelsea Ballerini léku frumraun sína sem par á rauða dreglinum á CMT tónlistarverðlaununum í Texas hinn 2. apríl síðastliðinn.
Fyrir rúmum þremur mánuðum fór orðrómur á flug um að Stokes og Ballerini væru farin að stinga saman nefjum, en þau staðfestu þann orðróm á rauða dreglinum og virtust alsæl hvort með annað.
Ballerini sagðist vera að fara á „mjög heitt stefnumót“ þegar parið gekk niður rauða dregilinn að því er fram kemur á vef People. „Ég er virkilega ánægð og það er mjög gaman að ... þetta er fyrsta sinn sem við förum opinberlega út á lífið saman,“ bætti hún við.
Kelsea var áður gift ástralska tónlistarmanninum Morgan Evans, en þau skildu í ágúst 2022 eftir rúmlega fimm ára hjónaband.
Stokes var áður með leikkonunni Madelyn Cline frá 2021 til 2022, en þau leika saman í hinum geysivinsælu unglingaþáttum Outer Banks á streymisveitunni Netflix.