Buckingham-höll hefur nú afhjúpað boðskortið á einn eftirsóttasta viðburð 21. aldar, krýningarathöfn Karls lll. kóngs og Kamillu drottningar. Þá hefur verið staðfest að viðburðurinn fari fram 6. maí næstkomandi í Westminster Abbey.
Samkvæmt opinberri vefsíðu bresku konungsfjölskyldunnar munu yfir 2.000 boðskort fara út á næstu dögum.
Boðskortið hannaði listamaðurinn Andrew Jamieson. Upprunalega boðskortið var handmálað með vatnslitum og gvasslitum, en fyrir miðju má sjá forna mynd úr breskum þjóðsögum, græna manninn, sem er táknrænn fyrir vor og endurfæðingu til að fagna nýju ríki.
Þá prýða boðskortið falleg blóm og gróður sem eru táknræn fyrir Bretland ásamt til dæmis býflugu, fiðrildi og rjúpu. Blómin birtast þrjú og þrjú saman, sem táknar að konungurinn verði sá þriðji sem ber nafnið Karl.
Samhliða boðskortinu gaf höllin einnig út nýja ljósmynd af Karli og Kamillu. Hún var tekin í síðasta mánuði í Blue Drawing-herberginu í Buckingham-höll.