Gymshark-auðkýfingurinn Ben Francis varð á dögunum metinn yngsti milljarðamæringur í sögu Bretlands eftir að hann komst inn á lista Forbes yfir yngstu milljarðamæringa heims.
Flestir sem hafa flett í gegnum samfélagsmiðla hafa rekist á áhrifavalda og stjörnur í íþróttafötum frá Gymshark. Það sem fáir vita þó er að sagan á bak við velgengni fyrirtækisins er ansi merkileg.
Francis stofnaði íþróttafatamerkið fyrir 11 árum, þá aðeins 19 ára gamall, í bílskúr foreldra sinna í Birmingham í Bretlandi. Hann ákvað að hætta í háskólanum til að einbeita sér að fyrirtækinu en starfaði þó samhliða því sem pítsasendill hjá Pizza Hut til að byrja með.
Alls komust 15 einstaklingar á lista Forbes, en þar af voru 11 sem erfðu auðæfi sín. Francis er einn af fjórum á listanum sem eru „sjálfgerðir“ milljarðamæringar.
Auðkýfingurinn er metinn á 1,2 milljarða bandaríkjadollara sem nemur rúmlega 164,6 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins í dag.
Í samtali við Daily Mail segir Francis að leyndarmálið á bak við velgengni fyrirtækisins hafi verið að fá áhrifavalda og stjörnur með stóran fylgjendahóp á samfélagsmiðlum til að klæðast vörumerkinu.
Nokkrar af frægustu stjörnum og áhrifavöldum heims hafa sést í íþróttafatnaði frá Gymshark, þar á meðal er söng- og leikkonan Nicole Scherzinger og Victoria's Secret-fyrirsætan Jasmine Tookes.
Af samfélagsmiðlum Francis að dæma lifir hann miklu lúxuslífi og er duglegur að fara í glæsileg ferðalög um heiminn og fjárfesta í dýrum mótorhjólum. Hann er giftur kanadíska áhrifavaldinum Robin Gallant, en þau gengu í hjónaband í september 2021.
Hjónin tóku á móti tvíburum hinn 24. desember síðastliðinn, en þau tilkynntu óléttuna opinberlega þremur mánuðum áður.