„Það sem mér finnst erfitt með Siðmennt er það að mér finnst þau einhvern veginn ekki geta kynnt starf sitt eða sagt frá öðruvísi en að tala til dæmis niður starf þjóðkirkjunnar og mér er þetta alveg óskiljanlegt,“ segir Jóna Hrönn Bolladóttir, sóknarprestur í Garðabæ, í samtali við Einar Bárðarson í hlaðvarpsþættinum Einmitt.
„Ég ber mikla virðingu fyrir Siðmennt og þeirra starfi,“ segir Jóna í þættinum. Hún bætir við að hún hafi bæði hvatt fermingarbörn og fjölskyldur þeirra og verðandi hjón til að skoða alvarlega að nýta þeirra þjónustu heldur en að fara leið sem einhver í fjölskyldunni kann að vera ósáttur við.
Jóna Hrönn segist fagna því að við séum að verða fjölmenningarlegra samfélag.
„Ég bara fagna því að fá hingað til landsins fólk frá öðrum kirkjudeildum en lúterskum og annarrar trúar.“
Hún segir að þar sem trúarbrot og mismunandi menning þrífist saman í sátt og samlyndi náist að gera stórkostleg samfélög.
Jóna Hrönn segir að prestar þjóðkirkjunnar séu meðvitaðir og uppteknir af því að tala ekki niður trú eða lífsskoðanir annarra.
Þáttinn Einmitt er að finna á öllum almennum hlaðvarpsveitum.