Netheimar hafa logað eftir að orðrómur fór á flug um að raunveruleikastjarnan Kylie Jenner og leikarinn Timothée Chalamet séu að stinga saman nefjum.
Orðrómurinn fór á kreik eftir að Jenner og Chalamet fóru bæði á Jean-Paul Gaultier tískusýningu í janúar, en þar náðust myndir af þeim saman. Þau hafa ekki staðfest samband sitt en aðdáendur hafa verið að missa sig síðustu daga.
Að því er fram kemur á Daily Mail barst ábending um að „margir heimildarmenn“ hefðu staðfest að Chalamet væri komin með nýja kærustu, og að það væri Kylie Jenner. „Ég heyrði að þau ætluðu bæði að vera á Coachella-tónlistarhátíðinni.“
Aðdáendur Jenner eru misánægðir með meint samband Hollywood-stjarnanna og hafa verið óhræddir við að tjá sig um það á samfélagsmiðlum. „Kylie Jenner og Timothée Chalamet ... ég er ekki að ná utanum þessar skelfilegu upplýsingar,“ skrifaði einn aðdáandi á meðan annar skrifaði: „Timothée Chalamet og Kylie Jenner??? Lífi mínu er lokið.“
Jenner var áður með rapparanum Travis Scott, en þau hættu saman í ársbyrjun 2023. Fyrrverandi parið byrjaði saman eftir að hafa kynnst á Coachella-tónlistarhátíðinni árið 2017 og eiga saman tvö börn.