Riverdale-leikkonan Lili Reinhart er sögð vera komin með nýjan elskhuga. Sá heppni heitir Jack Martin og er TikTok-stjarna.
Reinhart og Martin virðast vera ansi heit fyrir hvort öðru ef marka má myndir á Page Six sem náðust af þeim deila sjóðheitum kossi á flugvellinum í Los Angeles á mánudaginn síðastliðinn.
Aðdáendur leikkonunnar voru ekki lengi að sjá líkindi milli fyrrverandi kærasta hennar, leikarans Cole Sprouse, og Martin enda óneitanlega þó nokkur svipur með þeim.
Reinhart og Sprouse hættu saman í maí 2020 eftir þriggja ára samband, en þau kynntust við tökur á þáttunum Riverdale sem hafa vakið mikla lukku á streymisveitunni Netflix.
Sprouse kom nýverið fram í hlaðvarpinu Call Her Daddy þar sem hann ræddi meðal annars um Reinhart og sagði samband þeirra hafa valdið þeim báðum miklum skaða. Þá greindi hann einnig frá því að „næstum allar“ fyrrverandi kærustur hans hefðu haldið framhjá honum.