„Ég er fullur eftirvæntingar yfir því að fá að gæða norrænu útgáfuna af þessum geysivinsæla söngleik lífi ásamt frábærum hópi listamanna,“ segir Gísli Örn Garðarsson leikstjóri sem ætlar að sviðsetja nýja uppfærslu af Disney-söngleiknum Frozen eða Frosti á Íslandi, í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku.
Sýningin er samstarfsverkefni Vesturports og Det Norske Teatret í Osló, Þjóðleikhússins á Íslandi, Borgarleikhússins í Stokkhólmi og Borgarleikhússins í Helsinki, en tilkynnt verður um danskt leikhús innan tíðar. Sýningin verður frumsýnd í Ósló 14. október 2023 og síðan í Reykjavík í febrúar 2024, en sýningar í Stokkhólmi, Helsinki og Kaupmannahöfn verða kynntar síðar.
Söngleikurinn Frost (Frozen) er byggður á samnefndri teiknimynd Disney frá 2013 og ævintýri danska rithöfundarins Hans Christian Andersen, Snædrottningunni, frá 1844. Í sögumiðju eru tvær systur, Elsa, sem býr yfir dularfullu leyndarmáli og er einangruð frá umheiminum, og Anna, sem leggur af stað í ferðalag til að bjarga henni.
Disney frumsýndi teiknimyndina Frozen síðla árs 2013 og er óhætt að segja að hún hafi strax slegið í gegn hjá bæði áhorfendum og gagnrýnendum. Fyrir fimm árum var söngleikurinn Frozen frumsýndur í St. James-leikhúsinu á Broadway í framleiðslu Disney Theatrical Productions og varð söluhæst allra sýninga frá upphafi í forsölu á Broadway. Bandaríska söngleikjauppfærslan af Frozen hefur verið sýnd á leikför um Ástralíu og Norður-Ameríku, og á West End í London, í Japan og Hamborg í Þýskalandi í upprunalegu Broadway-útfærslunni.
Aðspurður segir Gísli Örn það vissulega óvanalegt að stórfyrirtæki eins og Disney leyfi nýjar uppsetningar á þekktum verkum sínum. „
Vesturport fékk sýningarréttinn á öllum Norðurlöndunum og hefur algjörlega frjálsar hendur til að vinna nýja uppsetningu. Við nálgumst það verkefni full af leikgleði og tilhlökkun,“ segir Gísli Örn og tekur fram að slíkir samningar fáist ekki upp úr þurru heldur eigi sér langan aðdraganda og grundvallist á persónulegum tengslum.
„Í raun má rekja þetta aftur til þess þegar við í Vesturporti fórum með uppfærslu okkar á Hamskiptunum eftir Franz Kafka á stærstu leiklistarhátíð heims, Festival Iberoamericano, í Bógóta í Kólumbíu árið 2009,“ segir Gísli Örn og rifjar upp að Felipe Gamba, sem var hluti af listrænu teymi hátíðarinnar, búi og starfi í New York þar sem hann á síðustu árum hefur verið að vinna sig upp innan Disney-veldisins.
„Við höfum verið vinir síðan og reglulega rætt það hvort við gætum unnið eitthvað saman. Hann á í raun hugmyndina að því að Vesturport búi til þessa nýju norrænu sýningu sem ég leikstýri,“ segir Gísli Örn, sem hefur langa reynslu af því að vinna sýningar þvert á lönd.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.