Leikarinn Joshua Jackson, sem hefur verið giftur leikkonunni og fyrirsætunni, Jodie Turner-Smith í rúmlega þrjú ár, segir að framhjáhald ætti ekki að binda enda á sambönd.
„Ég held að það sé hægt að fyrirgefa framhjáhald. Við erum öll fullorðin. Enginn vill láta halda framhjá sér og það er mikil vinna að gera við það,“ sagði leikarinn í samtali við Sunday Times.
Jackson telur framhjáhald ekki snúast um maka eða kynlíf, heldur sé það brot sem liggi dýpra en margir geri sér grein fyrir. Leikarinn hefur farið með hlutverk í tveimur verkefnum sem skoða framhjáhald, annars vegar The Affair frá Showtime og Fatal Attraction.
Leikarinn var áður með leikkonunni Diane Kruger, en þau hættu saman árið 2016 eftir 10 ára samband. Ástæða sambandsslitanna var talin vera að Jackson vildi ekki ganga í hjónaband né eignast börn.
Í dag á Jackson þriggja ára gamla dóttur með Turner-Smith, en hann segir hugarfarsbreytingu hafa orðið með aldrinum. „Ef við Turner-Smith hefðum kynnst fimm árum fyrr hefðum við líklega átt í hörmulegu ástarsambandi. En allt hitt dótið, ég var bara ekki tilbúinn. Ég hélt að ég myndi aldrei vilja giftast,“ sagði hann.