Framleiðendur Love is Blind þáttanna hafa svarað ásökunum um að þeim hafi mistekist að huga að velferð þátttakenda, bæði á meðan á upptökum stóð og eftir að þeim lauk.
„Velferð þátttakenda okkar er í algjörum forgangi hjá okkur. Við erum með strangar reglur hvað varðar umönnun þátttakenda fyrir og eftir tökur og á meðan þeim stendur,“ segja framleiðendur í yfirlýsingu sem birtist á vef Hollywood Reporter.
Danielle Ruhl, sem tók þátt í þriðju þáttaröð raunveruleikaþáttanna vinsælu, er ein þeirra sem hefur gagnrýnt skort á andlegum stuðningi í kringum tökur. Eftir að hafa fengið kvíðakast og falið sig inn í fataskáp til að nást ekki í mynd, hafi hún viljað yfirgefa þáttinn.
Framleiðendur hafi þó sannfært hana um að halda áfram, því ástarsaga hennar og Nick Thompson hafi verið mikilvægur hluti þáttanna. Ruhl og Thompson giftu sig í lok þáttaraðarinnar, en Ruhl fór fram á skilnað ári eftir að tökum lauk.
Haft hefur verið eftir öðrum þátttakendum að erfitt hafi verið að fá nægan svefn á meðan á tökum stóð, ásamt því að vatn og matur hafi oft verið af skornum skammti. Einnig furðuðu margir þátttakendur sig á því að ekki hafi sálfræðingur á setti á meðan tökum stóð.