Sérstök tegund af einlægni

Tónskáldið Atli Ingólfsson samdi söngverkið Elsku Borga mín upp úr sendibréfum sem bóndakona úr Dölum skrifaði dóttur sinni. Verkið var síðan hljóðritað og gefið út rafrænt og einnig bók, Veðurskeyti frá Ásgarði, með skýringum og vangaveltum um ýmsar hliðar verksins og textans og samband tóna og texta yfirleitt, en einnig gerði ítalska listakonan Jeannette Castioni myndband við verkið.

Í bókinni segir Atli frá tilurð verksins, vali á texta og tómsmíðaaðferðum sem hann nýtti og einnig eru greinar eftir Bergljótu Soffíu Kristjánsdóttur bókmenntafræðing, Margréti Elísabetu Ólafsdóttur listfræðing, Sigurð Gylfa Magnússon sagnfræðing, Örnólf Eldon Þórsson tónskáld, Trausta Jónsson veðurfræðing, Heimi F. Viðarsson íslenskufræðing og Steinunni Arnþrúði Björnsdóttur guðfræðing. Sjálft verkið var gefið út rafrænt og í bókinni er QR-kóði sem hægt er að lesa í snjallsímum og vísar á verkið.

Í viðtali í Dagmálum segir Atli að best sé að lýsa bókinni sem albúmi áþekku þeim sem fylgdu hljómplötum forðum áður en öll útgáfa varð stafræn. „Þetta er allt sprottið af því að ég fór að hugsa hvernig gefa megi út músík í dag sem geti hugsanlega gefið sömu upplifun og maður fékk í gamla daga með albúm með texta sem maður sökkti sér niður í; maður var að horfa um leið og maður hlutaði. Þetta er tilraun til að endurvekja það; í stað þess að gefa bara út á netinu þá er þetta í raun og veru eins og albúm. Þetta er upptaka af tónverki sem þá er þarna ekki í föstu formi heldur sem QR-kóði sem leiðir mann inn á slóð þar sem hægt er að hlusta og restin er það sem maður les.“

Sérstök tegund af íslensku og sérstök tegund af einlægni

Eins og getið er í upphafi samdi Atli verkið við bréf frá móður til dóttur, hversdagsleg bréf frá Lilju Magnúsdóttir í Ásgarði í Dölum til Borgu, Guðborgar Aðalsteinsdóttur dóttur sinnar, á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. „Ég var að leita að svona texta, ég var að leita að þessari tegund af íslensku, kannski líka að þessari tegund af einlægni, ekki skáldskap, og stóru safni sem ég gæti ausið úr inn í – köllum það tónverk eða hljóðskúlptúr eða raddskúlptúr jafnvel. Af því að ég er mjög upptekinn af hljómi tungumálsins líka og vil að sá hljómur fái að skína í verkinu.

Þannig að fyrst kom þessi hugmynd og síðan fór ég að leita að textum. Ég spurði Bergljótu Kristjánsdóttur bókmenntafræðing og mikla vinkonu mína og hún kom með uppástungur eins og til dæmis texta sem voru fundargerðir af stúkufundum í Hafnarfirði um 1910 – afskaplega fallegt og skemmtilegt en ég tengdi ekki við það strax. Henni hugkvæmdist svo að tengdamóðir hennar átti þessi bréf og tengdamóðirin er engin önnur en þessi Borga. Þegar ég svo fékk að lesa þessi bréf með leyfi Borgu sá ég að þarna var komið efni sem mig langaði að sökkva mér í og fékk heimild til þess. Tónverkið heitir sem sagt Elsku Borga mín en síðan fannst mér eins og bókin, þegar hún var sett saman, að hún þyrfti að heita eitthvað annað því þarna eru greinar eftir ýmsa. Það varð þannig að Veðurskeyti frá Ásgarði, sem er skrifuð einhvern veginn utan um verkið Elsku Borgu mína,“ segir Atli og bætir við að þótt veðurstöð hafi ekki verið sett upp í Ásgarði fyrr en eftir að bréfin voru skrifuð séu veðurlýsingar fyrirferðarmiklar í bréfunum, eins og Íslendinga er siður, og heitið því viðeigandi.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu þér ekki bregða þótt aðrir kunni ekki að meta frumleika þinn og nýjungagirni. Leitaðu þér ráðgjafar í fjármálum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Tove Alsterdal
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu þér ekki bregða þótt aðrir kunni ekki að meta frumleika þinn og nýjungagirni. Leitaðu þér ráðgjafar í fjármálum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Tove Alsterdal
5
Torill Thorup