Rapparinn Desiigner hefur ákveðið að setja tónlistarferilinn í biðstöðu á meðan hann leitar sér hjálpar vegna geðheilsu sinnar eftir að hann beraði sig nýverið í flugi.
Rapparinn segist hafa fengið slæm viðbrögð við nýju lyfi er leiddi hann til þess að leika á alls oddi þegar hann var á heimleið frá Tælandi og Tókýó. „Undanfarna mánuði hef ég ekki verið alveg í lagi og átt í erfiðleikum með að sætta mig við það sem hefur verið að gerast,“ skrifaði hann á Instagram á fimmtudaginn.
„Þegar ég var staddur erlendis til þess að koma fram á tónleikum, þurfti ég að leggjast inn á sjúkrahús, ég gat ekki hugsað skýrt. Þeir gáfu mér lyf og ég varð að hoppa beint upp í flugvél til þess að fara heim. Ég skammast mín fyrir gjörðir mínar í þeirri flugvél. Ég lenti í Bandaríkjunum og viðurkenndi fyrir sjálfum mér að ég þyrfti að leita mér hjálpar,“ bætti hann við.
Hinn 25 ára gamli Desiigner hefur aflýst öllum væntanlegum tónleikum og skuldbindingum á meðan hann fær þá hjálp sem hann þarfnast. „Geðheilsa er alvöru, krakkar! Vinsamlegast biðjið fyrir mér,“ sagði hann að lokum. “Ef þér líður ekki eins og þú sjálf/ur, vinsamlegast leitaðu hjálpar.“