„Þetta eru nýjar borgarlandslagsmyndir. Málverk af frekar litlum radíus í miðbæ Reykjavíkur, Kvosinni og þar í kring,“ segir Þrándur Þórarinsson listmálari sem í dag opnaði sýninguna Borgarlistamaður í Gallery Porti.
Spurður út í titil sýningarinnar segir Þrándur að það sé einfaldlega komið til vegna þess að hann langi mikið til að vera útnefndur borgarlistamaður.
„Þetta lýsir bara þeim draumi mínum. Ég bíð alltaf með öndina í hálsinum hvern 17. júní og vona að nú sé komið að mér.“
Ertu að beita nefndina þrýstingi með þessari sýningu?
„Já, það má alveg segja það. Ég var að velta fyrir mér hvort ég ætti að vera með einhverjar hótanir líka og segjast ætla að mála nefndina í vafasömum hlutverkum eða aðstæðum ef ég fengi ekki útnefninguna í ár en ég ákvað að láta það eiga sig. Kannski geri ég það bara á næsta ári ef ég fæ ekki útnefninguna nú í júní,“ segir Þrándur í gamansömum tón.
Í kynningartexta fyrir sýninguna segir:
„Liðin er sú tíð að stinga á kýlum í spilltu samfélagi til að slá auðveldar pólitískar keilur og vinna lýðhylli. Það lýðskrum er að baki. Viðhlæjendunum fer fækkandi. Engar hauskúpur og rotnandi lík í leigukytrum leiguhákarla saurga strigann meir. Það er honum orðinn löðurmannlegur starfi og léttur að þeyta upp moldroki í moldugum heimi, farsa og skandala.“
Hvað ertu að fara hér?
„Undanfarin ár hef ég mikið verið að mála pólitísk verk þar sem ég er með drullubombur á hina og þessa stjórnmálamenn og stefnur og einhverra hluta vegna hafði ég það ekki í mér að halda því áfram. Ég er í rauninni bara að gera grín að því að ég sé orðinn gamall og bitlaus.“
Ertu kannski hættur að fylgjast með og verða reiður.
„Nei, ég segi það nú ekki en myndirnar eiga á hættu að tapa gildi sínu ef maður er bara að mála það sem er í fréttum og verður kannski gleymt og grafið eftir nokkur ár. Þannig að ég ákvað að taka smá pásu frá því.“
Á sýningunni í Gallery Porti verða til sýnis og sölu fimm stór verk auk 12 hágæða Glicee-eftirprentana af hverju verki.
Hvernig velurðu myndefnið, til dæmis af hafnarbakkanum gamla (sjá mynd)?
„Í þessu verki studdist ég við gamla ljósmynd sem ég rakst á. Þarna lögðust skipin að bryggju í gamla daga og þetta var aðkoman inn í bæinn og ég er að mála þetta eins og ég held að Guðjón Samúelsson hafi séð þetta fyrir sér. Þess vegna er í málverkinu annað eins hús og Nathan Olsen, uppreist í málverkinu. En það voru ekki peningar eða stemning fyrir því á sínum tíma. Það hefði verið svo „grand“. Þarna hefði fólk gengið inn í bæinn upp flottustu götu bæjarins. Það má segja að ég sé að flikka upp á borgina með því að færa hana aftur í tímann en eins og hún átti að vera.“