Hlakkar til að koma til Íslands

Lukas Forchhammer segir Grammy-verðlaunin og tónleika á Wembley meðal hápunkta …
Lukas Forchhammer segir Grammy-verðlaunin og tónleika á Wembley meðal hápunkta á ferlinum. Ljósmynd/Anders Berg

Danska popphljómsveitin Lukas Graham sló í gegn víða um heim árið 2015 með laginu „7 years“ og kemur nú fram í fyrsta sinn hér á landi, í Silfurbergi Hörpu á miðvikudag, 26. apríl, kl. 20.

Forsprakki hljómsveitarinnar, söngvarinn Lukas Forchhammer, leggur áherslu á að njóta þess lífs sem hann hefur skapað sér og nýta þann tíma sem hann hefur með fjölskyldunni vel.

Forchhammer segir félagana í sveitinni hafa lengi dreymt um að spila á Íslandi, þeir hafi komið til Hjaltlandseyja, Færeyja og Grænlands en einhverra hluta vegna hafi Ísland aldrei passað inn í dagskrána.

„Mamma Magnusar Larsson, sem spilaði á bassa í hljómsveitinni í gamla daga, er frá Íslandi og við töluðum alltaf um að við yrðum að fara þangað en það varð því miður ekki af því fyrr en núna. En við hlökkum mikið til,“ segir Lukas í samtali við mbl.is.

Sveitin Lucas Graham varð heimsfræg árið 2015 fyrir lagið „7 …
Sveitin Lucas Graham varð heimsfræg árið 2015 fyrir lagið „7 years“.

8 ára atvinnumaður

Faðir Forchhammers hét Eugene Graham og þannig varð nafn sveitarinnar til. Hann var írskur, enska aðaltungumálið á æskuheimilinu og þess vegna segist söngvarinn skrifa lagatextana á ensku. Þeir feðgar deildu tónlistaráhuganum.

„Pabbi átti risastórt safn af plötum og við hlustuðum á alls konar þjóðlagatónlist frá Írlandi og Bandaríkjunum og líka á mikið rokk og ról. Crosby, Stills, Nash & Young, The Kinks, The Who, Bítlana og Rolling Stones,“ telur hann upp.

„En við gátum líka tekið upp á því að hlusta á The Prodigy þegar við áttum að þvo gólf eða eitthvað svoleiðis og ég varð sjálfur mjög upptekinn af rapptónlist á miðjum 10. áratugnum, bæði þessa aðeins eldri rappara, 2PAC og Biggie Smalls, en líka Dr. Dre, 50 Cent og Eminem. Ég kann virkilega að meta þann heiðarleika sem er að finna í þjóðlagatónlist og rappi, það að segja alvöru sögur af alvöru lífi.“

Forchhammer byrjaði líka snemma að leggja stund á tónlistarnám.

„Mamma segir að ég hafi sungið í fullkominni tónhæð alveg frá því ég var á ungbarnaleikskóla. Í grunnskóla komst ég inn í skóla sem heitir Sankt Annæ og þar er drengjakór. Svo ég var í raun klassískt menntaður sópran sem strákur og byrjaði átta ára að syngja, í raun sem atvinnumaður, í Dómkirkjunni í Kaupmannahöfn. Ég söng til dæmis við útför Ingrid drottningar þegar ég var 12 ára og fór í tónleikaferðir með kórnum til Bandaríkjanna og Suður-Ameríku,“ skýrir hann.

„Ég byrjaði síðan að skrifa texta þegar ég var 12 eða 13 ára. Það varð að rappi þegar ég var unglingur og svo að sönglögum þegar ég var um tvítugt. Ég var svo 23 ára þegar ég gaf út mína fyrstu plötu.“

Tónleikaferð með ungbarn

Spurður hvort hann hafi getað séð fyrir þessa velgengni innan tónlistarbransans þegar hann var barn segir hann:

„Þegar ég var 12 ára sagðist ég vilja verða rokkstjarna eða lögfræðingur og ég endaði reyndar á að læra lögfræði áður en ég fékk plötusamning. En ég ólst upp í Kristjaníu og við fengum ekki klósett og baðherbergi fyrr en ég var sex ára. Ég man eftir pabba að grafa fyrir skolpræsi á bak við húsið okkar. Öll mín uppvaxtarár fórum við í sameiginlegt baðhús og gengum í notuðum fötum. Maður á bara eina æsku og mín var í Kristjaníu.“

Það hafa því verið mikil viðbrigði þegar lag hljómsveitarinnar, „7 years“ varð gríðarlega vinsælt árið 2015. Sveitin varð allt í einu heimsfræg

„Þegar „7 years“ varð vinsælt um allan heim þá komum við varla heim í 300 daga. Við ferðuðumst bara um og spiluðum í Bandaríkjunum og í Evrópu. Eina ástæðan fyrir því að við gerðum hlé á túrnum var að elsta dóttir mín, Viole, átti að koma í heiminn í lok september 2016. Svo við fórum öll heim og ég var viðstaddur fæðinguna. Fimm vikum síðar fórum við fjölskyldan, mamma, pabbi og barn, aftur á ferðalag og við ferðuðumst í 7 mánuði til viðbótar með ungbarn í rútunni,“ segir hann. 

„Það var alveg klikkað að spila á Grammy-verðlanunum og á Wembley fyrir framan 80 eða 90 þúsund manns. Það var ótrúleg upplifun, sérstaklega þegar maður hefur alist upp í notuðum fötum í Kristjaníu, að sitja í einkaflugvél með gin og tónik í hendinni af því við hefðum ekki náð milli staða á réttum tíma með venjulegu flugi.“

Lengra viðtal við Lukas Forchhammer má finna í laugardagsblaði Morgunblaðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu þér ekki bregða þótt aðrir kunni ekki að meta frumleika þinn og nýjungagirni. Leitaðu þér ráðgjafar í fjármálum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Tove Alsterdal
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu þér ekki bregða þótt aðrir kunni ekki að meta frumleika þinn og nýjungagirni. Leitaðu þér ráðgjafar í fjármálum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Tove Alsterdal
5
Torill Thorup