Mikil spenna var í fótboltaleik rithöfunda og útgefenda á Þróttarvelli í Laugardalnum í dag. Úrslitin réðust á lokamínútunum og fóru útgefendurnir að lokum með 2:1 sigur af hólmi.
Annað hvert ár reima útgefendur og rithöfundar á sig skóna í tengslum við Bókmenntahátíð Reykjavíkur og takast á í fótboltaleik.
„Þetta er skemmtileg hefð og var nokkuð jafn leikur í dag, en að sjálfsögðu unnum við,“ segir Heiðar Ingi Svansson, fyrirliði liðs útgefenda eftir leikinn.
„Við áttum að skora fleiri mörk og svo er ég náttúrulega svekktur sem markvörður liðsins að hafa misst inn eitt, ég hefði átt að verja þetta.“
Þau Kristján Dagur Egilsson og Kristín Anna Smári, starfsmenn hjá Forlaginu, skoruðu fyrir útgefendur.
„Það voru ákveðin kynslóðaskipti hjá okkur í liðinu. Liðið var skipað blöndu af yngri og eldri leikmönnum og það voru þeir yngri sem skoruðu,“ segir Heiðar.
„Þetta var hörkuleikur og jafnt alveg fram á síðustu mínútu. Þetta var mjög jafnt og hefði getað farið á hvorn veginn sem er, en með baráttuanda náðu útgefendurnir að merja sigur,“ segir Börkur Gunnarsson, fyrirliði liðs rithöfunda.
„Við rithöfundarnir héldum góðu skipulagi og áttum góðar sóknir. Það var 1:1 í hálfleik og Halldór Armand skoraði fyrir okkar lið.“
„Einar Kárason átti að skora úr góðu færi en Heiðar náði að verja frá honum. Svo fékk Yrsa Þöll rithöfundur gott færi eftir sendingu frá skáldinu Sigurbjörgu Þrastardóttur, en því miður hafðist það ekki. En þetta var ótrúlega gaman.“