Ellen Geirsdóttir Håkansson
Mikið er sótt í gististaði í Liverpoolborg vegna Eurovision-söngvakeppninnar. Borið hefur á því að gististaðir afbóki gesti sem pöntuðu herbergin sín á hefðbundnu verði með miklum fyrirvara til þess að selja herbergin miklu dýrara verði.
Í umfjöllun NRK er greint frá því að sumir sem hafi misst bókanir sínar neyðist til þess að gista í kjallara Norðurlandakirkjunnar í Liverpool.
Gististæði þar, meðan á keppninni stendur, muni kosta 50 pund eða tæplega 8.700 krónur í stað þeirra 25 punda sem gistiplássið kostar venjulega.
Verðhækkun kirkjunnar fölni þó í samanburði við þá sem sjáist hjá hótelum og gistiheimilum borgarinnar. Meðalverð fyrir eina nótt miðsvæðis í borginni, sé tekið mið af Booking.com og Airbnb, sé nú um 400 þúsund krónur. Þá hafi verð fyrir rúm í koju á gistiheimili sem ætlað er ungmennum hækkað úr sex þúsund krónum í rúmlega 21.300 krónur.
Keppnin fer fram í Liverpool dagana 9. til 13. maí næstkomandi. Úkraína lenti í fyrsta sæti í keppninni í fyrra og Bretland í öðru sæti en vegna stríðsins í Úkraínu heldur Bretland keppnina.