Hversdagsbjór til heiðurs Prins Póló

Hirðin með bruggmeisturum Borgar. Í efri röð frá vinstri eru …
Hirðin með bruggmeisturum Borgar. Í efri röð frá vinstri eru Björn Kristjánsson, Örvar Smárason, Örn Ingi Ágústsson og Ívar Pétur Kjartansson. Í neðri röð frá vinstri eru Halldór Darri Guðjónsson, Sturlaugur Jón Björnsson, Árni Long og Hlynur Björnsson. Ljósmynd/Þorgeir Ólafs

„Það er gríðarleg stemning í hópnum og mikil tilhlökkun enda hefur verið heljarinnar verkefni að koma þessu öllu heim og saman,“ segir Björn Kristjánsson tónlistarmaður með meiru.

Björn er einn skipuleggjenda Hátíðar Hirðarinnar sem haldin verður í Gamla bíói í vikunni. Uppselt er á fyrri tónleikana sem haldnir verða á afmælisdegi Svavars Péturs Eysteinssonar, Prins Póló, miðvikudaginn 26. apríl, en enn eru lausir miðar á aukatónleika á fimmtudagskvöldið.

Fjölmargar hljómsveitir og tónlistarfólk kemur fram og spilar nokkur lög til heiðurs Svavari Pétri. Allur ágóði af tónleikunum rennur í nýstofnaðan minningarsjóð Svavars Péturs sem lést fyrir aldur fram síðasta haust. Útdeilt verður árlega úr sjóðnum til skapandi fólks með góðar hugmyndir.

Á tónleikunum verður hægt að bragða á glænýjum bjór sem Hirðin tók þátt í að brugga í tilefni þessarar miklu hátíðar. Bruggað var í samstarfi við Borg brugghús og ber bjórinn nafn sem sótt var í eitt laga Prinsins, Jólakveðju, þar sem skáldið söng um jólabjórinn. Kallast bjórinn Sama gamla sullið og undirtitillinn er „hversdagsbjór“.

Sama gamla sullið er lagerbjór sem Hirðin tók þátt í …
Sama gamla sullið er lagerbjór sem Hirðin tók þátt í að brugga fyrir Hátíð hirðarinnar.

„Það var nóg af allskonar góðum frösum og orðum sem við fórum í gegnum en þetta var niðurstaðan á endanum,“ segir Björn um nafn bjórsins. „Okkur fannst líka viðeigandi að brugga lagerbjór með þessu nafni og að kalla þetta hversdagsbjór. Prinsinn var auðvitað konungur hversdagsleikans.“

Árni Long, bruggmeistari hjá Borg, segir það hafa verið mikinn heiður að fá Hirðina í heimsókn í brugghúsið. „Við erum mikið Prins-fólk hjá brugghúsinu og höfum meðal annars vitnað í hann í tveimur bjórútgáfum í gegnum tíðina – annars vegar með bjórnum Sultuslök nunna og hins vegar bjórnum Hakk & spaghettí sem báðir voru í tilraunalínunni okkar. Það má því segja að við skuldum honum – og þá meina ég umfram þá eilífðarskuld sem við og allt samfélagið stöndum í við hann vegna þeirrar framúrskarandi listar sem við höfum notið vegna hans.“

Björn tók sig vel út í verkunum í brugghúsinu.
Björn tók sig vel út í verkunum í brugghúsinu.

Bruggmeistarinn segir að ekki hafi þótt við hæfi að vera með neina tilraunamennsku þegar Sama gamla sullið varð til. „Það kom auðvitað ekkert annað til greina en að gera okkar skásta við að fanga sjoppulega töfra hversdagsleikans og því ákváðum við að brugga saman einn strangheiðarlegan ljósan lager af þessu tilefni – engir stælar og engin gríma – bara kóróna.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Viðvörunarbjöllur í tilfinningalífinu hringja sem mest þær mega. Nú væri gott að ræða við maka um orlof og skapandi verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Viðvörunarbjöllur í tilfinningalífinu hringja sem mest þær mega. Nú væri gott að ræða við maka um orlof og skapandi verkefni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar