Leikarinn Lukas Gage og hárgreiðslumeistarinn Chris Appleton eru sagðir hafa gengið í það heilaga við leynilega athöfn í Las Vegas síðastliðna helgi.
Gage og Appleton héldu lítið brúðkaup í Litlu hvítu kapellunni í Las Vegas og giftu sig fyrir framan sex gesti. Meðal þeirra var raunveruleikastjarnan Kim Kardashian að því er fram kemur á Page Six.
Gage er líklega hve þekktastur fyrir hlutverk sín í þáttunum You og White Lotus sem hafa notið gríðarlegra vinsælda upp á síðkastið. Appleton á glæstan feril að baki sem hárgreiðslumeistari stjarnanna og hefur unnið með Hollywood-stjörnum á borð við Kim Kardashian, Jennifer Lopez og Ariönu Grande.
Það er óljóst hvenær Gage og Appleton kynntust, en þeir opinberuðu samband sitt í febrúar síðastliðnum þegar þeir birtu myndaröð frá ferðalagi sínu um Mexíkó. Fyrr í mánuðinum bárust fregnir af því að þeir hefðu trúlofað sig.