Skemmtikrafturinn og söngvarinn heimskunni, Harry Belafonte, eða Harold George Belafante Jr., er látinn, 96 ára að aldri. Belafonte var fæddur í Harlem í New York 1. mars 1927, sonur móður frá Jamaíka og föður frá frönsku eyjunni Martinique.
Belafonte ólst að hluta til upp á Jamaíka en sneri aftur til New York þar sem frægðarsól hans reis hratt gegnum söng og kvikmyndaleik en ekki síður baráttu hans gegn kynþáttahatri og -mismunun. Þar í borg lifði hann enn fremur sitt síðasta en Belafonte lést í New York í dag.
Hann var þríkvæntur og eignaðist fjögur börn. Á ferli sínum hlaut hann Emmy-verðlaun, Tony-verðlaun og þrenn Grammy-verðlaun og varð líkast til þekktastur fyrir lagið The Banana Boat Song. Meðal kvikmynda sem hann lék á má nefna Uptown Saturday Night (1974), Buck and the Preacher (1972) og White Man's Burden (1995) þar sem hann lék á móti John Travolta.
Belafonte heimsótti Íslandi árið 2004. Það var á vegum UNICEF á Íslandi en hann var þá góðgerðaherra. Var hann meðal annars viðstaddur þegar jólakortasölu Unicef var hleypt af stokkunum og opnaði ljósmyndasýningu í Smáralind.
Þá var hann einnig gestur í þættinum Laugardagskvöld með Gísla Marteini á Rúv.