Veðbankar eru óvissir um hvort Ísland stígur á svið á úrslitakvöldi Eurovision þann 13. maí næstkomandi.
Núna 18 dögum fyrir úrslitakvöldið situr fulltrúi okkar, Diljá Pétursdóttir, í 24. sæti samkvæmt spám fyrir heildarkeppnina. Samkvæmt því ætti hún því að komast áfram úr sinni undankeppni, því 26 lönd keppa í úrslitunum.
Ef skoðaðar eru spár fyrir undankeppnina, sem fer fram 11. maí, er Íslandi hins vegar spáð 14. sæti, en tíu lög komast áfram á úrslitakvöldið. Taldar eru 33% líkur á því að Diljá stígi á svið í úrslitunum.
Það er því ekki samræmi á milli spáa um hvort Ísland komist áfram eða þurfi að sitja eftir.
Ef skoðaðar eru spár fyrir heildarkeppnina trónir Svíþjóð á toppnum, en 44% líkur eru á því að hin sænska Loreen fari með sigur af hólmi. Finnland kemur þar næst en 17% líkur er á finnskum sigri. Nokkuð langt er í næstu þjóðir, en Úkraína situr í þriðja sætinu með 7% líkur á sigri.