Aðdáendur leikkonunnar Megan Fox og rapparans Machine Gun Kelly hafa miklar áhyggjur af parinu eftir að Kelly hélt upp á 33 ára afmæli sitt án Fox.
Kelly varð 33 ára hinn 22. apríl síðastliðinn. Hann birti myndaröð frá afmælisdeginum á Instagram með myndum af fjölskyldu og vinum Kelly, en það hefur vakið mikla athygli að Fox sé hvergi að finna á myndunum.
Fylgjendur rapparans voru ekki lengi að koma auga á að eitthvað vantaði á myndirnar. „Hvar er Megan??“ spurði einn á meðan aðrir lýstu yfir verulegum áhyggjum sínum.
Í febrúar síðastliðnum fóru sögusagnir á flug um sambandsslit Kelly og Fox eftir ásakanir um framhjáhald. Fox steig hins vegar fram og þvertók fyrir að þriðji aðili hafi komið upp á milli þeirra, en fyrir rúmum tveimur vikum síðan greindu þau frá því að vera byrjuð saman aftur.