Tónlistarmaðurinn Love Guru er vaknaður eftir vetrardvala og ætlar að fá fólk til að hrista rassinn sem aldrei fyrr í sumar. Love Guru fagnar 20 ára afmæli í ár en um er að ræða tónlistarhliðarsjálf útvarpsmannsins Þórðar Helga Þórðarsonar eða Dodda litla.
Hvað ertu að gefa út núna?
„Þetta er „mashup eða samansafn nokkurra laga meistarans þó að 1 2 Selfoss og Partý útum allt séu hvað mest áberandi. Katla Þórudóttir Njálsdóttir leik- og söngkonan frábæra syngur með mér í laginu. Að vísu eru mun fleiri gellur þarna líka því þetta er safn nokkurra laga. Lísa Einars, Karitas Harpa, og grínsveitin Bergmál. Þetta er sullandi salsa sveifla en svo fylgir líka með öskrandi teknó útgáfa sem heitir #Hristu rassinn, hér kemur Techno!“ Segir Doddi litli um nýjustu ævintýri Love Guru.
Ertu að fara fylgja lögunum eftir?
„Love Guru vaknar alltaf á sumrin og heimsækir fólk sem vill hann í heimsókn, Guri verður á nokkrum stöðum í sumar en eins og venjulega verður hápunkturinn Kótelettan á Selfossi. Guri hefur verið með nánast frá upphafi, ekki fyrsta árið en síðan þá... rock on.“
Love Guru er orðin 20 ára, fer hann að fullorðnast á einhvern hátt?
„Fer hann? Ertu að meina að hann sé barnalegur? Nei hann fullorðnast aldrei enda er hann hálfviti. Hann var dónalegur í upphafi, mér fannst það mjög erfitt svo hann fór úr dónaskap í að vera rosa vitlaus, ég á mun léttara með að leika það hlutverk, skapaður í það.“
Af hverju er Love Guru kynþokkafyllsta fitubolla landsins?
„Ég hélt að allir sæju það? Þetta kynþokkagrín er bara vegna fyrsta lagsins, það var dónalag og átti bara að vera útvarpsskets en fólkið vildi meira og þá þurfti ég að búa til þessa týpu og sit uppi með það. Mér fannst það alltaf svolítið fyndið því ég er andstæðan við kynþokka og þokkinn hækkar ekkert með aldrinum. þetta er svona týpa trúir því sjálfur að hann sé „dead sexy en hann er alveg einn í því liði.
Hvað færðu út úr því að bregða þér í hlutverk Love Guru?
„Eintóma gleði, þetta var gífurlega erfitt hér áður, þegar ég átti að vera einhvern dónakarakter en eftir að hann var bara voða vitlaus Stuð Almáttugur þá er þetta bara gaman. Love Guru er pínu eins og lóan er fyrir öðrum, hann kveður burt snjó, frost og leiðindi – enda mikill kvæðameistari. Love Guru er lítill, vitlaus og saklaus sál sem vill bara gleðja og halda partí,“ segir Doddi litli að lokum.