Krýningarathöfn Karls III. Bretakonungs nálgast óðfluga og hafa hin ýmsu fyrirtæki nýtt sér tækifærið og framleitt nýjar vörur í tilefni dagsins eða jafnvel boðið frían varning fyrir þau sem bera nöfnin Karl og Kamilla.
Krýningarhátíðin verður þann 6. maí næstkomandi og virðist allt ætla um koll að keyra í Bretlandi vegna hátíðarhaldanna. Hátíðarhöldin hefjast á laugardag og geta Bretar hreinlega baðað sig í gleðinni þar sem þeir fá þriggja daga helgi í tilefni dagsins.
Þá verður hægt að næla sér í krýningarkjúklingakartöfluflögur, sérmerkt gin og allskyns góðgæti sem ber merki dagsins.
Nýjasta markaðstæknin er þó örlítið sérkennilegri en sérmerktur matur því fyrirtæki bjóða nú þeim sem bera nöfnin Charles eða Camilla að fá frían varning eða bjóða þeim í ferðalög.
Þau sem bera nöfn kóngafólksins eiga möguleika á að vinna fría ferð á Butlin's hótel, fara á upptökur sjónvarpsþáttanna „The masked singer“ og frítt út að borða.
Hvað varðar mat þá er fyrirtækið HelloFresh, sem heldur úti svipaðri starfsemi og íslenska fyrirtækið Eldum rétt, að gefa hráefniskassa til þeirra sem eru svo heppnir að hafa verið skírðir réttu nafni. Þar að auki mun fyrirtækið gefa út sérstakan matseðil í tilefni hátíðarinnar.
Ekki eru öll tilboðin af flóknum toga en í sumum tilfellum er hægt að fá frían kaffibolla eða afslátt á söfn.